Við Jakob og Líf fluttum inn í nýju fínu íbúðina okkar um helgina, ekki númer 15 heldur númer 13 -hún er aðeins stærri og er á endanum sem þýðir að við fáum fleiri glugga, betra útsýni og stæði í bílageymslu…sem er algjörlega yndislegt, aldrei aftur kaldur bíll á morgnanna!  Okkur lá svo mikið á að flytja að Jakob henti bara kössunum inn á meðan ég var að vinna 12 tíma vakt á laugardaginn, svo var búið um rúmið og við sváfum fyrstu nóttina heima hjá okkur!! Þó að það hafi allt verið í drasli og engar gardínur held ég að ég geti samt fullyrt að ég hafi aldrei sofið betur.  Við erum svo búin að vera að gera fínt hjá okkur og þetta er smám saman að verða heimilislegt. Það er samt einhvernveginn undarlega erfitt að flytja inn í íbúð þar sem má mála, negla og bora í veggi og svoleiðis eftir að hafa verið í leiguíbúðum í langan tíma og þessvegna eru veggirnir okkar ennþá allir tómir. En það er langsamlega besta tilfinning í heimi að vera hérna heima og vita að ég þarf ekki að flytja aftur fyrr en eftir mööööörg ár!

…Allavegana, höldum innflutningspartý þegar við komum heim frá Suður Afríku! 🙂

Stiklað á stóru yfir það sem er búið að vera að gerast….

-Vinnuálagið á sjúkrahúsinu á Neskaupstað leiddi til þess að við Jakob gerðum nánast ekkert nema að vinna og sofa í allt sumar. Gönguskórnir okkar sem við ætluðum aldeilis að nýta stóðu óhreyfðir inni í geymslu í allt sumar. Fólkið sem ég ætlaði að heimsækja reglulega fékk ekki eina einustu heimsókn (Esther og Jón -þið eigið mest í þessu) og allar fríhelgarnar sem ég hafði hugsað mér að djamma á voru samtals tvær. Það sem bjargaði þessu þó var gríðarlega hresst og skemmtilegt samstarfsfólk á sjúkrahúsinu auk þess sem ég safnaði gríðarlega miklu bæði í reynslubankann og banka-bankann. Vel þess virði.

-Hressasta helgi sumarsins og annað af þessum 2 „djömmum“ var um Frönsku dagana á Fáskrúðsfirði. Þar var öll föðurfjölskyldan mín samankomin í fyrsta skipti í fjööööldamörg ár og ég held að það sé óhætt að fullyrða að við höfum skemmt okkur fyrir öll árin sem við vorum búin að missa úr. Við Jakob áttum miða á Damien Rice og fleiri í Bræðslunni á Borgafirði eystri á laugardagskvöldinu, en þegar á hólminn var komið þá tímdum við bara alls ekki að yfirgefa Frönsku dagna og seldum miðana okkar þegar nokkrir klukkutímar voru til stefnu. Sáum ekkert eftir því. Það er kannski of langt mál að útskýra nákvæmlega hvað og hvernig það atvikaðist að við Jakob fórum á djammið á laugardeginum í þessum íþróttagöllum, en við keyptum þá glænýja á lagerúthreinsun í Viðarsbúð á 400 kall stykkið. Héldum frekar góða sýningu/kennslu í breikdansi fyrir fjölskyldumeðlimi og aðra gesti sem áttu leið að Hlíðargötu 20.

Við eigum mjög fáar myndir af þessu sjálf þannig að ég stal þessari hjá Jónu og Rúnari.

-Ég byrjaði að vinna á Vökudeildinni á LSH síðasta mánudag og fyrsta vikan er búin að vera alveg ótrúlega skemmtileg. Ég er alltaf spennt að fara í vinnuna og kem heim brosandi allan hringinn eftir að hafa verið innan um þessi agnarsmáu og yndislegu kríli.

-Við keyptum okkur íbúð í dag og eyddum ekki meiri tíma í það heldur en ef Jakob hefði verið að kaupa sér nýja skó! Við fórum að skoða íbúðina klukkan fjögur. Gerðum kauptilboð um klukkan sex og fengum það samþykkt fyrir klukkan átta. Jáhh…hann Jakob getur sko verið leeeeengi að kaupa sér skó. Bæði notar hann mjög stóra og svo er hann alveg óendanlega vandátur á skófatnað. En við flytjum vonandi inn í íbúðina í lok vikunnar. Hún er í Norðlingaholtinu í götum sem við höfum ákveðið að kalla Ballarhaf frekar en Bjallavað. Það verður svo ljúúúúft að eiga loksins heima einhverstaðar fyrir alvöru.

-Það eru bara tvær vikur þangaðtil við Jakob förum til Suður Afríku…þannig að það er gríðarlega margt að gleðjast og spennast (?) yfir þessa dagana 🙂

Helgina 12. til 13. júlí skruppum við Jakob suður í brúðkaup hjá Bergrúnu systur hans og Helga Má. Páll Óskar og Monica sungu nokkur lög í kirkjunni sem var æðislegt. Brúðhjónin voru óendanlega fín og brúðarmeyjarnar algjörar dúllur. Veislan var eitt allsherjar stuðpartý langt framá nótt og skemmtiatriðin voru þau allra hressustu sem ég hef séð, hefði ekki getað verið betra.

Ég greip brúðarvöndinn, en hélt ekki nema nokkrum blómum eftir að hann var hrifsaður af mér. Gerði mér ekki grein fyrir því hversu hart og lengi er barist um þennan vönd 🙂 Hef þó ekki miklar áhyggjur af þessu þar sem við erum jú búin að bóka kirkjuna og enn er ekkert nema matur í maganum á mér.

Las það inná mbl í gær að Frank Lampard væri búinn að skrifa undir hjá Inter. Þetta eru nærst verstu fótboltafréttir sem ég hefði getað hugsað mér að lesa. Eina sem gæti toppað þetta væri ef John Terry væri á förum. Mér sýnist samt að þeir hafi verið full fljótir á sér hjá Mbl þar sem þetta er ekki alveg frágengið…en samt ekki ólíklegt að af þessu verði. Ömurlegt, ömurlegt, ömurlegt.

Drogba og Anelka eru allt annar handleggur, mín vegna má selja þá eða gefa hvaða félagi sem er.

Úr því að ég er byrjuð á ömurlegum fréttum þá má einnig taka það fram að ég er að fara í stelpupartý í kvöld og í tilefni dagsisns vaknaði ég auðvitað með risastórt kýli öðru megin ofan við efri vörina. Þegar ég er búin að setja á mig púður til að fela það myndast svona líka hress dökkur blettur þannig að ég er eins og ég sé með mústass öðrumegin og það er auðvitað baaara fallegt! 🙂

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst Haikur alveg ótrúlega fyndnar. Bragfræði er alls ekki mín sterkasta hlið og þessvegna finnst mér mjög áhugavert að þær byggi aðallega á reglum um fjölda atkvæða og efnisinnihald. Ég gæti ekki útskýrt stuðla og höfuðstafi þó líf mitt lægi við, hvað þá önnur bragfræðileg atriði og því held ég að Haikur séu mín eina von um að geta búið til eitthvað á ljóða-formi.

Þetta ætti ekki að vera erfitt. Eftir því sem ég kemst næst, með aðstoð Wikipedia og annara netsíðna þá eru þetta aðalatriðin.

1) Atkvæðin þurfa að vera 17 eða færri. Algengt er að henni sé skipt í þrjár línur með 5, 7 og 5 atkvæðum.

2) Það þarf að vera einhver vísun í árstíðina þegar hún er samin.

3) Það þarf að nota einhverskonar greinarmerki til að skipta Haikunni upp í andstæður.

…ég þarf eitthvað að pæla í þessu því þetta er lúmskt erfitt þegar maður byrjar…nema maður svindli eins og þessi ágæti maður og sleppi bara hluta úr orði.

To express oneself
in seventeen syllables
is very diffic

Eftir laaaaanga bið er loksins búið að leggja nettengingu í litla húsið okkar á Neskaupstað. Rúmlega tveggja vikna netleysi hefur verið hræðileg lífsreynsla og ég held að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en núna hversu hræðilega háð ég er internetinu.

Lífið hérna á Nesó er búið að vera ljúft. Við Jakob og Líf erum nánast eingöngu búin að vinna, sofa og horfa á EM auk þess að fara í maaaarga góða göngutúra. Þegar EM klárast stendur til að auka virknistigið töluvert og gera hluti sem þykja almennt hollari og skynsamlegri heldur en að hanga yfir fótbolta og fótboltaumræðuþáttum alla daga.

Við skruppum norður um helgina og ég var útskrifuð sem hjúkka. Á þessum tímamótum verð ég að viðurkenna að það sem er mér efst í huga eru næstu jól. PRÓFALAUS JÓL!!! Næstu jól verða sko mestu og bestu jól allra jóla. Ég ætla að byrja að baka um leið og fyrsta jólaskrautið kemur í Kringluna og Smáralindina eða fyrsta jólalagið heyrist í útvarpinu -hvort heldur sem er á undan. Ég ætla að horfa á allt jóladagatalið í sjónvarpinu, kaupa mér jólatré og vera búin að redda öllum jólagjöfum löööngu fyrir Þorláksmessu, auk þess að eyða talsverðum tíma og pælingum í pökkun og skreytingar. Get ekki beðið 😀

Útskriftardagurinn sjálfur var samt æði, veðrið var allt of gott og við vorum allar æði fínar! Svo fannst mér líka gaman að ég fékk verðlaun fyrir besta árangur í Heilsugæslufræðum, kannski ekkert svakalega merkilegt, en gaman samt. Takk til allra sem hafa nennt að hlusta á mig röfla síðustu fjögur árin, nú er þetta loksins búið! 😉

Um helgina pökkuðum við Jakob saman öllu okkar hafurtaski, skelltum því í flutningabíl, þrifum íbúðina og fluttum okkur og allt dótið okkar í Kópavoginn. Við erum komin enn eina ferðina á þriðju hæðina hjá tengdó. Dótið okkar fær að vera í bílskúrnum yfir sumarið á meðan við erum á Neskaupstað og verður svo vonandi komið fyrir í okkar eigin íbúð í haust.

Við stelpurnar skiluðum lokaverkefninu okkar á föstudagin, viku fyrir skiladag, og vorum bara nokkuð ánægðar með okkur. Ég ætla svo sem ekkert að fara að íþyngja neinum með því að útlista efni ritgerðarinnar, en prófarkarlesarinn okkar sá ástæðu til þess að þýða tilgátuna okkar yfir á venjulegt mál, sem mér fannst mjög fyndið.

Tilgátan okkar: Lífsgæði þeirra sem gangast undir gerviliðaaðgerð á hné aukast verulega, einkum hvað varðar verki og hreyfifærni.

Á venjulegu máli: Þeim sem gangast undir gerviliðaaðgerð á hné líður betur á eftir vegna þess að verkir minnka og þeim gengur betur að hreyfa sig.

Nú eigum við ekkert eftir nema að kynna niðurstöðurnar 30.maí og svo er útskrift 14.júní -þá má ég fara að kalla mig Hjúkrunarfræðing sem mér finnst allt í einu ægilegur titill eftir að hafa verið Hjúkrunarnemi í fjögur ár…

Allavegana, við Jakob verðum í Kópavoginum fram að 30.maí  en á Neskaupstað eftir þann tíma. Við verðum meira og minna á Neskaupstað í sumar, með nokkrum „skreppum“ suður, þangaðtil í lok september. Þá er planið að skella okkur til Suður Afríku og heilsa uppá fjölskylduna og „móðurjörðina“. Að þeirri ferð lokinni flytjum við til Reykjavíkur og svo vonandi ekkert aftur í mörg, mörg ár. Ég er satt best að segja orðin töluvert þreytt á því að eiga hvergi heima og spái því að ég muni detta all rækilega í húsmóðurgírinn um leið og við eignumst heimili! 🙂

Þessa stundina hef ég þó ekki undan neinu að kvarta, það er vor í loftinu og ég hef ekkert að gera nema njóta þess að gera akkúrat ekkert nema það sem mig langar til í heilar þrjár vikur!

Svo lengi sem ég man þá hef ég algjörlega hatað Star Wars myndirnar, svona geim-dót er bara ekki my-thing. Ég hef rifist og skammast yfir því við mjög marga hvað þessar myndir séu óendanlega leiðinlegar, fussað og sveiað yfir fólki sem lifir sig algjörlega inní þennan heim og alltaf verið snögg að skipta um stöð ef þær hafa verið í sjónvarpinu. Ég tel mig þessvegna hafa sýnt gríðarleg þroskamerki um daginn þegar ég ákvaða að drífa í að horfa á allar þessar myndir og sjá what all the fuss is about og geta þá hraunað yfir Star Wars aðdáendur vitandi hvað ég er að tala um! Ég fékk Jakob í lið með mér að horfa á allar sex myndirnar og hann stóð sig þvílíkt vel í að halda mér vakandi á meðan ég var að koma mér upp þoli gagnvart geim -bardögum,-vélmennum og hinum ýmsu þjóðflokkum sem finnast í Star Wars heiminum.

Þar sem ég hef auðvitað ekki séð neitt af þessu þá gat ég horft á myndirnar í réttri röð út frá sögunni en ekki hvenær myndirnar voru gerðar. Flestir hafa séð eitthvað af gömlu myndunum eða þekkt söguna eitthvað og séð fyrir mikið af því sem gerðist í nýju myndunum. Ég hafði hinsvegar ekki hugmynd um hvað var í gangi og var til dæmis mjög brugðið þegar krúttið hann Anakin sneri baki við Jedi-unum og gekk í lið með illmennunum, akkúrat þegar hann átti von á tvíburum með skvísunni henni Natalie Portman. Það var algjörlega óhjákvæmilegt að lifa sig inní þetta, þessar myndir eru auðvitað klassík og ég er hætt að prumpa um að þetta sé leiðinlegt…þó að ég hafi á köflum átt mjög erfitt með að horfa á löng bardagaatriði og hlusta á eitthvað geim-tal.

Þar sem ég hef tíma fyrir svona vitleysu þarf örugglega ekki að taka það fram að lokaverkefnisvinnan gangi eins og í sögu! 🙂 Ritgerðin er löngu tilbúin í öllum aðalatriðum og við erum bara búnar að vera í rólegheitunum að fínpússa. Gripurinn fer vonandi í prentun fyrir helgi og þá er þetta búið, BÚIÐ!!!!!!!

Laugardagurinn síðasti var einn af þeim betri. Við Jakob rifum okkur á fætur klukkan níu um morguninn þrátt fyrir talsverða drykkju af minni hálfu kvöldið áður. Við vorum búin að mæla okkur mót við Karl Hillers, formann Chelsea klúbbsins á Stamford Bridge til að sækja miðana okkar á leik Chelsea og Manchester United sem átti að byrja klukkan 12:45. Við áttum allt eins von á því að þurfa að sitja í Manchester stúkunni vegna þess hve mikil ásókn var í miða á leikinn og við áttum auðvitað enga uppsafnaða punkta í þessu ægilega kerfi sem miðasala á heimaleiki Chelsea er.  Hillers náði hinsvegar að útvega okkur alveg frábæra miða í ægilegri stuð-stúku.  Eftir góða verslunarferð í Chelsea búðina komum við okkur snemma fyrir á vellinum og fylgdumst með upphituninni og hvernig völlurinn fylltist smám saman af fólki, alls ekki leiðinlegt.

Leikurinn sjálfur var snilld, veðrið var frábært, stemmningin var tryllt og úrslitin ekki af verri endanum. Bæði mörkin voru skoruð á öfugum vallarhelmingi við sætin okkar en vítaspyrnan var tekin beint fyrir framan nefið á okkur. Úrslitin voru mjög ánægjuleg fyrir mig en Jakob var ekkert rosalega glaður. Hann viðurkenndi það þó þegar honum var runnin mesta reiðin að hann væri ánægður fyrir mína hönd að hafa séð mitt lið vinna á heimavelli!

Ég var búin að röfla mjög mikið yfir því fyrir leikinn hvað ég væri fúl yfir því aldrei séð þá leikmenn sem gerðu Chelsea að „mínu“ liði. Dennis Wise, LeSaux, Flo, Zola og fleiri snillingar eru auðvitað allir farnir fyrir löngu. Það var þessvegna alls ekki leiðinlegt þegar enginn annar en norðmaðurinn sjálfur, Tore Andre Flo birtist á vellinum í hálfleik…reyndar bara í sínum eigin fötum, en ég var svo snortin af nærveru hans að ég var við það að fara að skæla. Bjargaði deginum…ef þetta hefði verið Dennis Wise, þá hefði ég sjálfsagt brynnt músum!!

 

 

Það má svo bæta því við að þetta var auðvitað árshátíðarferð með vinnunni hans Jakobs. Félagsskapurinn var ekki slæmur og fjörið var vel yfir meðallagi. Það toppar samt ekkert þennan leik!

 

 

Það er alltaf nóg að gera á Akureyrinni. Lokaverkefnið tekur alltaf sinn toll og stundum líður mér eins og þetta sé óendanlegt verkefni, alltaf þegar við erum búnar að skila einhverju þá bíður annar kafli…og hver einasti kafli er lengri en nokkur ritgerð sem ég hef áður skrifað. Tíminn segir mér hinsvegar að þetta sé að fara að taka enda, ekki nema mánuðu í lokaskil.

Líf og Jakob alltaf jafn yndisleg. Það er ekki leiðinlegt að heim eftir langa lærdómsdaga þegar það er bókstaflega slegist um fyrsta knúsið. Reynslan segir mér að það sé best að byrja að knúsa hundinn, ef Jakob fær fyrsta knúsið þá tryllist hún af afbrýðisemi.

Í lok apríl erum við Jakob að fara í helgarferð til London. Ég þori varla að segja frá því af hræðslu við að „jinxa“ það á einhvern hátt, en við erum að fara á Chelsea vs Man. united á Stamford Bridge. Miðamálin gengu nokkuð brösulega fyrst um sinn og hvert bakslagið rak annað en núna erum við BÆÐI skráð í Chelsea klúbbinn og búin að borga miðana þannig að þetta hlýtur að vera komið í höfn. Við erum bókstaflega að drepast úr tilhlökkun þó að það sé smá titringur í gangi varðandi það hvaða lið muni vinna leikinn og hvaða áhrif það hafi á okkar samband.

Um síðustu helgi komu Bylgja og Erik í heimsókn til okkar sem var æði skemmtilegt og minnti okkur á hvað það verður gaman að flytja loksins suður.

Stærstu fréttirnar eru þó fjölgun hjá Sigurlaugu og Einari Má en þau eignuðust litla stelpu þann 10.apríl sem er alveg ótrúlega sæt og ég hlakka svo til að hitta þær mæðgur og gefa þeim knús.

Læt hérna eina mynd af hundinum sem ég tók í gær, hún stækkar alltaf og stækkar, enda algjörlega óseðjand matargat.